fimmtudagur, mars 29, 2007

sumar og sól

og fórum í Ikea í gær.
Keyptum meðal annars þetta fallega speis grill. Held að þetta hljóti að vera framtíðar tískubóla og allir eigi eftir að eiga svona 2015, bíðið bara!

Systir hans Georgs og frændi, Tóta og Örnólfur, eru að koma um helgina og þá eigum við örugglega eftir að prófa grillið því veðrið á að vera svona og það er aldrei of snemmt að byrja að grilla........þau fá jafnvel að prófa dansmottuna!

mánudagur, mars 26, 2007

ljúfa líf

Já, er búin að vera í fríi í tvær vikur og ekkert leiðst ennþá :) Það á meira að segja að vera 14 stiga hiti og sól út vikuna þannig að ég verð úti í sólbaði að safna freknum og lesa.
Annars reyni ég að fara í langa göngu/hjólatúra á hverjum degi, eru reyndar farnir að styttast aðeins því ég þarf að pissa á a.m.k klukkutíma fresti og verð því að vera nálægt klósetti, skemmtilegt. Svo er ég líka í meðgöngujóga/hvalaleikfimi einu sinni í viku með Jóhönnu. Það er mjög fínt og oft líka fyndið, eigum oft erfitt með að taka þetta alvarlega sérstaklega hugleiðsluna með rollujarm og baul í bakgrunninum......

Ætluðum á tónleika í gær, Arcade Fire sem var aflýst því að söngvarinn er víst búinn að missa röddina, þannig að við fórum í fýluferð. Frekar leiðinlegt því það er svo langt síðan við höfum farið á tónleika og við misstum af miðum á Bonnie Prince Billy sem okkur langaði ótrúlega mikið á.

Jább, annars mest lítið að frétta. Ég verð feitari og feitari og þyngri og þyngri á mér og hlakka mikið til að verða í eðlilegum hlutföllum aftur. Nú eru bara 4-8 vikur eftir (6 vikur í settan dag) en er að reyna að vera bjartsýn og vona að ég sé eins og mamma og systir mín sem hafa aldrei gengið fullar 40 vikur :) erum búin að setja bumbumyndir inn á myndasíðuna.

Fékk líka þessa snilldargjöf frá vinkonum mínum í afmælisgjöf þannig að mér leiðist nú örugglega ekki.......dansmotta þannig að ég get æft mig að dansa með bumbuna út í loftið.

miðvikudagur, mars 21, 2007

Vandinn að verða pabbi...

Georg fékk þessa bók í gjöf frá ömmu og höfum við ákveðið að deila nokkrum viskuperlum með ykkur hinum :)

Nr 1.

Fyrsta örugga merki þess, að það eigi fyrir manni að liggja að verða faðir, kemur venjulega fram hjá konunni, en síðar koma greinilega einkenni föðurhlutverksins fram hjá honum. Þetta sést til dæmis á því að hann tekur upp á því að láta konu sína ganga á undan sér upp í strætisvagn, réttir henni jafnvel hjálparhönd og sér um, að hún fái sæti í vagninum. Hann fer að hafa nær því sjúklegan áhugsa á vaxtarlagi hennar og þrástarir á hana, einkum miðjuna. Hann getur meira að segja orðið svo langt leiddur að fara að hjálpa henni við að að lyfta þungum hlutum, og þess eru jafnvel talin dæmi, að hinn verðandi faðir beiti ryksugunni af frjáslum vilja, þvoi gólf og fægi glugga.

En þessi sjúkdómseinkenni eru alvarlegust hjá frumferðrum og eiga rætur að rekja til írafárs sem grípur menn, þegar þeir fá vitneskju um það, sem í vændum er, og lagast þetta tiltölulega fljótt, þegar börnum fjölgar.

Efnisorð:

sunnudagur, mars 18, 2007

Innrásin frá Íslandi.

Pabbi og mamma og bróðir minn farin, finnst alltaf svolítið tómlegt hjá okkur þegar gestir fara. En það var rosa gaman að hafa þau og við gerðum margt skemmtilegt með þeim, fórum út að borða, skoðuðum Christaníu, héldum upp á afmælið mitt, röltum um bæinn og kíktum í búðir. Þannig að mér hefur ekkert náð að leiðast í fríinu ennþá ;)
Þau gáfu okkur nýtt barnarúm og aukahluti, þannig að það fer allt að verða tilbúið fyrir krílið, skrítið að vera farin að telja niður í vikum en ekki mánuðum.
Við Jóhanna ætlum að bjóða í smá afmæliskaffi í dag og allir velkomnir :)

miðvikudagur, mars 14, 2007

Húrra fyrir mér!!!

Ég á afmæli í dag, orðin heilu ári eldri og byrjaði í bareignaleyfi. Á eftir er ég að fara að sækja mömmu og pabba og bróður minn út á flugvöll, húrra!

laugardagur, mars 10, 2007

nýjar myndir á myndasíðunni!!

2 dagar eftir af vinnu
3 dagar í afmæli
ca. 8 vikur í afkvæmið....

sunnudagur, mars 04, 2007

Systurnar



Erla (13 vikur)
Sólveig (30 vikur)

fimmtudagur, mars 01, 2007

óeirðir!!!


já, það er allt að sjóða upp úr hérna.
Ungdómshúsið á Jagtvej 69 var rutt í dag og mótmæli og óeirðir á ýmsum stöðum í Kaupmannahöfn brutust út í kjölfarið.
Meðal annars var kveikt í gámum og drasli á ýmsum stöðum á christianshavn, þar á meðal fyrir endann á götunni þar sem leikskólinn minn er. Fórum í göngutúr með krökkunum á vöggustofunni í morgun og furðuðum okkur á þyrlu sem var á sveimi yfir hverfinu. Sem betur fer vorum með síma á okkur því við stefndum víst beint í miðju óeirðanna, en löggan var búin að hringja á leikskólann og segja öllum að halda sig innandyra út af eldi og reyk.
Þegar ég fór úr vinnunni áðan var fullur sendiferðabíll af löggum með hjálma og grímur og alles lagður beint fyrir utan leikskólann minn og foreldrar streymdu inn að sækja börnin sín. Svaka drama í vinnunni hjá mér í dag og það er víst búið að loka nokkrum skólum og leikskólum og búist er við meiri mótmælum í kvöld. Löggan er í viðbragðsstöðu út á Kastrup til að leita af grunsamlegum farþegum sem gætu verið á leið í mótmæli. Hérna og hérna og hér er hægt að lesa um óeirðinar og sjá vídjóskot af brunanum sem var hjá leikskólanum mínum.